Á aðalfundi Kaupþings banka í dag sagði Sigurður Einarsson stjórnarformaður að stefnt yrði að því að leysa upp eignarhald bankans í fjárfestingarfélaginu Exista með því að ráðstafa með arðgreiðslum hluta af eign bankans í Exista.

Exista BV, dótturfélag Exista ehf, á 21,1% hlut í bankanum, en bankinn á 19,2% hlut í Exista ehf og hefur þetta ýtt undir neikvæðar umræður um krosseignarhald.

Sigurður Einarsson sagði að ef viðræður leiða til viðunandi niðurstöðu gerir stjórn bankans ráð fyrir því að kalla til hluthafafundar síðar á árinu og leggja þar til að hluthöfum verði greiddar aukaarðgreiðslur í formi hluta í Exista. Þetta er þó háð því skilyrði að hlutabréf í Exista verði skráð í Kauphöll Íslands fyrir árslok.

Sigurður Einarsson svaraði á fundinum þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á bankana að undanförnu og vísaði henni allri á bug. Sigurður sagði að eina ógnin sem stæði að bankanum í nánustu framtíð væri neikvæð umfjöllun sem væri ekki á rökum reyst.

Sigurður sagði að það kæmi til greina að flytja Kaupþing banka frá Íslandi til Evrópu þar sem það myndi vissulega endurspegla betur áherslur bankans þar sem stærsti hluta teknana komi erlendis frá. Sigurður sagði það ekki eftirsóknarvert að vera íslenskur banki um þessar mundir vegna neikvæðrar umfjöllun sem hafi átt sér stað. Einnig benti Sigurður á að krónan stæði rekstri bankans fyrir þrifum.

Sigurður sagði að það væri hlutverk stjórnvalda að búa svo um að bankarnir, sem eru nú mikilvægur hluti af íslensku efnahagslífi, myndu ekki flytja úr landi. Nauðsynlegt væri að grípa í taumanna í þeim efnum.