Fulltrúar Verkfræðingafélags Íslands afhentu í dag Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra tillögur að stefnumótun um rafbílavæðingu Íslands ásamt aðgerðaráætlun og greinargerð.

Í framhaldi af ávarpi forsætisráðherra á ráðstefnu rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands (RVFÍ) þann 13. nóvember síðastliðinn varð það að samkomulagi að RVFÍ skipaði starfshóp til að vinna tillögur um rafbílavæðingu Íslands.

Samkvæmt tillögum starfshópsins er markmiðið að hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum hér á landi verði 10% árið 2025 sem samsvarar því að 25 þúsund rafbílar verði í notkun.

Starfshópurinn leggur til að ákveðnum opinberum ívilnunum verði beitt til að ná markmiðinu. Þannig verði engin innflutningsgjöld á rafbílum og enginn virðisaukaskattur greiddur af þeim. Þá er meðal annars mælst til þess að enginn virðisaukaskattur verði greiddur af rekstrarleigu og bílaleigu rafbíla.