Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að Íslandi sé líklega betur statt utan Evrópusambandsins, með annarskonar samninga við sambandið en beina aðild. Þetta segir Steingrímur í samtali við Wall Street Journal í dag. Hann segist enn afar vantrúaður á kosti aðildar.

Steingrímur segir hagsmuni Íslendinga sérstaka þegar kemur að sjávarútvegi, landbúnaði og mörgu öðru.

Aðspurður um stöðu evrusvæðisins telur fjármálaráðherrann að ríkin muni standa af sér erfiðleikana. Hann nefnir að aðrað þjóðir, líkt og Bandaríkin og Japan, eigi mikið undir að ríkjum Evrópu gangi vel. Að mati Steingríms er Íslendingum þó betur borgið með að halda krónunni og segir hana hafa þjónað landinu vel. Veiking krónunnar bæti samkeppnisstöðu Íslands og styðji við efnahaginn.