„Ég hefði fyrirgefið þeim hefði þetta verið vel kveðið. En ef menn birta svona lélegar níðvísur þá er allt í lagi að svara þeim,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, um gagnrýni á sig í formi níðvísu sem birtist á netmiðlinum AMX í gærkvöldi. Steingrímur svaraði níðvísunni með sama hætti í formi meitlaðrar ferskeytlu í dag.

Í vísunni sem birtist í gær sagði að hún tæki á upphafi og endi Steingríms í pólitík. Hún var svona:

Fáum var hann fyrirmynd,

fáir nefndu hann Jóhann.

Með Jóhönnu hann sökk í synd,

síðan bara dó hann.

Í bréfi sem Steingrímur sendi AMX í dag segir:

„Ekki kippi ég mér upp við hefðbundið og reglulegt nag ykkar í mig, en þótti fróðlegt þetta með kveðskapinn og kíkti því á hann. Þá fór í verra, því mér þótti illa kveðið. Ég vil því bjóða ykkur að birta þetta svar frá mér og bréfið með ef þið viljið.

Illa kveðinn er þinn leir,

ýldu fylgir þefur.

Þegi skaði þegar deyr,

þessi aumi vefur.

með viðeigandi kveðju

Steingrímur J. Sigfússon“