Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans sem kynntar voru í morgun, að þær séu jákvætt skref svo langt sem það nái. „[Það er] tvímælalaust til bóta að eiga þetta upp á að hlaupa. Vonandi hjálpar þetta til,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Steingrímur segir að formenn stjórnarflokkanna: Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi kynnt forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna aðgerðirnar í morgun. „Að sjálfsögðu þakkar maður fyrir það,“ segir hann og bætir því við að þau leggi mikla áherslu á að vel sé talað um aðgerðirnar svo þær virki sem best. Á því hafi hann fullan skilning.

„Að sjálfsögðu er þetta jákvætt skref svo langt sem það nær og tvímælalaust til bóta að eiga þetta upp á að hlaupa. Vonandi hjálpar þetta til. En að sjálfsögðu er það öllum ljóst að þetta er bara ein aðgerð og ráðstöfun af mörgum og miklu víðtækari sem þarf að gera,“ segir hann og bætir við: „Með jákvæðu hugarfari er hægt að líta á þetta sem gott fyrsta skref - en aðeins það.“