„Ég veit ekki hversu oft ég er kallaður glæpamaður,“ sagði Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, á fundi Fjármálaeftirlitsins þar sem fjallað er um framtíð Fjármálaeftirlitsins. Steinþór sagði nauðsynlegt að byggja traust og slíkt snúist um heilindi. Hann sagði umræðuna vera óheflaða og fjölmiðlar hafi þetta eftir. „Það virðist ekki bara vera sérstakt skotleyfi á banka heldur líka á stjórnmál og stofnanir þjóðlífsins. Þetta er ekki að hjálpa svo hægt sé að byggja upp traust,“ sagði Steinþór.

„Traust er dýrmætt. Ef það er lítið þá er hraðinn minni og kostnaður meiri. Kostnaðurinn er mikill til að mynda við rannsóknarskýrslur en kostnaður eykst líka í öllu vinnulagi í fyrirtækjum og hjá hinu opinbera því traustið er lítið. Ef traust væri mikið myndi allt ganga betur og kostnaður væri minni. Þarna þurfum við að finna eðlilegt jafnvægi.“

Steinþór lagði áherslu á að þessi umræða ætti erindi við stjórnmálamenn en í salnum væri ekki mikið af þeim.