Tekjur Steinullar hf. á Sauðárkróki á síðasta ári, námu 1.557 milljónum króna, sem er aukning um 2,5% frá fyrra ári, en rekstrargjöldin jukust um rétt tæplega 10%, í 1,3 milljarða. Hagnaðurinn dróst því saman um 43% á milli ára, úr 227,4 milljónum í tæplega 169,1 milljón króna.

Eigið fé félagsins dróst saman um 11,5% frá fyrra ári, úr 698,8 milljónum króna í 617,9 milljónir króna, á sama tíma og skuldir félagsins jukust úr 298,3 milljónum, í 506 milljónir, eða sem samsvarar nærri 70%. Samanlagt jukust eignir félagsins, það er eigið fé og skuldir, um 12,7%, úr 997 milljónum í 1.124 milljónir.

Félagið, sem er til helmings í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, og hins vegar að fjórðungi til, bæði Byko og Húsasmiðjunnar, greiddi 250 milljónir króna í arð. Stefán Logi Haraldsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.