Lögmennirnir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, og Páll Eiríksson, lögmaður og starfsmaður slitastjórnarinnar, hafa fengið greiddar um 850 milljónir króna frá slitastjórninni á síðustu þremur árum.

Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því á fimmtudaginn í síðustu viku að Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verslunarmanna hefði leitað til dómstóla til að fá sundurliðaðar upplýsingar um launakostnað slitastjórnar Glitnis.

Í samtali við VB Sjónvarp fyrir helgi sagðist Steinunn ætla að skoða á hvaða grundvelli lífeyrissjóðir óski eftir launaupplýsingum og hvaða máli slíkar upplýsingar skipti fyrir þá.

Slitastjórnin hefur nú látið lífeyrissjóðunum í té þær upplýsingar sem leitað var eftir. Þar kemur fram að þau Steinunn og Páll fengu tæplega 200 milljónir króna frá þrotabúi Glitnis í fyrra vegna vinnu sinnar fyrir slitastjórn bankans. Samanlagðar greiðslur til þeirra beggja, með útseldri vinnu fulltrúa á þeirra vegum, hafa numið meira en 850 milljónum króna frá árinu 2009.

Þá kom fram í fréttum Stöðvar 2 að frá árinu 2009 og fram á þetta ár hafa tæplega 313 milljónir króna runnið til lögmannsstofu Steinunnar, Lögmannsstofu SG ehf. Þar af námu greiðslur í fyrra 100,5 milljónum króna. Greiðslur til lögmannsstofu Páls Eiríkssonar, Lögfræðiráðgjafar PE slf., hafa frá árinu 2009 numið ríflega 240 milljónum króna. Þar af námu greiðslur vegna ársins í fyrra ríflega 82 milljónum króna.

Þessu til viðbótar hafa heildargreiðslur þrotabússins til lögmannstofa þeirra Páls og Steinunnar numið tæplega 300 milljónum króna frá árinu 2009. Samtals gerir þetta ríflega 850 milljónir króna, eða sem nemur ríflega 20 milljónum króna á mánuði.