Steinunn Kristín Þórðardóttir hefur gengið til liðs við sænska fjármálaráðgjafarfyrirtækið Beringer Finance AB. Steinunn verður meðeigandi í fyrirtækinu og framkvæmdastjóri á nýrri skrifstofu þess í Noregi. Í tilkynningu segir að meginhlutverk Steinunnar sé að byggja upp Beringer Finance í Noregi og að veita viðskiptavinum fyrirtækjaráðgjöf. Hún verður hluti af framkvæmdastjórn Beringer Finance AB í Svíþjóð og sinnir þar m.a. stefnumótun og þróun félagsins ásamt öðrum stjórnendum þess.

Steinunn hefur starfað í fimm löndum á síðustu 20 árum. Hún var m.a. framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka (síðar Glitni) í London og leiddi þar uppbyggingu og rekstur bankans frá 2005 og fram í ágúst 2008. Síðastliðin 5 ár hefur Steinunn starfað hjá Akton AS, sem er ráðgjafafyrirtæki í Noregi sem hún stofnaði 2010. Hún hefur starfað með fyrirtækjum í ýmsum geirum, svo sem í sjávarútvegi, skipa-og orkuiðnaði, lyfjaiðnaði og smávörusölu í matvælum og fatnaði. Ásamt því hefur hún sinnt ýmsum stjórnarstörfum m.a. í Noregi, Bretlandi og á Íslandi.

Steinunn sótti menntun sína til Bandaríkjanna en þar lauk hún BA gráðu í alþjóða viðskipta- og stjórnmálafræði og MBA gráðu með áherslu á fjármál. Steinunn er búsett í Noregi og er gift Antonios Koumouridis skurðlækni og eiga þau þrjú börn.