„Við höfum það mjög fínt hérna og búum í blokkaríbúð á 6. hæð. Hér er yndislegur sundlaugargarður, líkamsrækt, leikherbergi, sauna og pottatryllingur með útsýni yfir Persaflóann. Þetta er mjög elegant,“ segir Kristín Soffía Þorsteinsdóttir. Hún býr í Katar ásamt eiginmanni sínum, Ólafi Stefánssyni handboltamanni og börnum þeirra þremur, Helgu Soffíu, Einari Þorsteini og Stefaníu Þóru, en þangað fluttu þau frá Kaupmannahöfn fyrr í mánuðinum. Viðskiptablaðið forvitnaðist um lífið í Katar.

Kristín Soffía segir lífið í Katar ólíkt því sem hún á að venjast. Karlmenn tali til dæmis ekki við sig: „Þeir heilsa Ólafi og Einari Þorsteini 11 ára syni mínum með handabandi en ekki mér. Þeir nikka kannski til mín og segja í mesta lagi hæ. En þetta er víst af því þeir bera svo mikla virðingu fyrir mér. Eða ég kýs alla vega að taka því þannig.“

Gengur ekki um í kufli

Kristín Soffía segir það hafa verið furðulega sjón að sjá konur í kuflum á hlaupabrettunum í ræktinni og jafnvel á ströndinni líka. Hún segist þó ekki þurfa að hylja hárið eða ganga um í kufli:

„Ég hyl axlir og hné. Ég er ekkert að bögga þá með of miklu holdi. Það er bara beisik kurteisi. Og mér finnst ég alltaf þurfa að vera snyrtileg hérna. Það er ekkert jogginggallavesen á manni í búðunum hérna.“

Og lífinu er svo sannarlega tekið með ró í Katar:

„Krakkarnir eru ekki ennþá byrjaðir í skólanum af því að heimamenn eru ekkert að stressa sig á klukkum né öðrum tímaviðmiðunum eins og vikum eða mánuðum. Við erum því ekkert að stressa okkur á því heldur og förum að sofa seint á nóttunni og vöknum á hádegi. Liggjum svo í mollunum þess á milli eins og sönnum Aröbum sæmir. Svo að jú, hér er gaman,“ segir Kristín Soffía.

Katar
Katar
Helga Soffía og Einar Þorsteinn sigla á gondóla í verslunarmiðstöð í Katar.

Katar
Katar
Stefanía Þóra á ströndinni í Katar.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Útsýnið úr stofuglugganum heima hjá Kristínu Soffíu og fjölskyldu.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Myndin tekin af líbönskum/armenskum veitingastað sem er á Katara beach. Horft er yfir á West Beach og þangað sem Kristín Soffía og fjölskylda búa, upplýsti turninn í miðjunni.