Talið er líklegt að bráðlega verði létt af banni í Bretlandi á sölu tækja sem senda út stuttar Fm-bylgjur frá Mp3-spilurum, segir í frétt Personal Computer World.

Slík senditæki eru orðin vinsæl víða í Evrópu, sérstaklega iTrip-sendirinn frá Apple sem er sérstaklega hannaður fyrir iPod spilarann sívinsæla. Lengi hefur verið hægt að nálgast slíkan búnað í Bretlandi en óheimilt að nota hann.

Fjarskiptaeftirlitsstofnun Bretlands (Ofcom) hefur sett af stað viðræðuferli sem miðar að því að endurskoða lögin, en Ofcom vonast til að samkomulag náist um alla Evrópu um notkun slíks búnaðs.

Ísland hefur þegar lögleitt notkun á slíkum búnaði, ásamt Þýskalandi, Sviss, Liechtenstein og Eistlandi.

Engin hefur verið ákærður fyrir ólöglega notkun slíks búnaðar síðan lögin voru sett fyrir 57 árum. Lögunum var upphaflega beint að ólöglegum útvarpsstöðvum, en útvarpsbylgjurnar sem Fm-senditækin senda frá sér draga aðeins örfáa metra.