Pálmi Haraldsson segist ekki vilja útiloka að reynt verði að sameina Sterling öðru flugfélagi eða að hann muni reyna að fá fjárfesta til þess að koma inn í Sterling.

„Ég vil ekki útiloka að við munum reyna að sameinast öðru flugfélagi eða að ég muni reyna að fá meðfjárfesti í félagið. Við erum mjög opnir fyrir slíkum möguleikum. Það er þörf á samþjöppun í greininni," segir Pálmi í dönskum fjölmiðlum.

Pálmi fullyrðir þó að Sterling sé ekki í fjárhagslegum vandræðum og sé ekki háður velviljabanka sem eigi í vandræðum.

„Sterling er skuldlaust - einu skuldirnar sem félagið á er gagnvart mér," segir Pálmi við Jyllands-Posten.

Hann getur þess þó ekki að miklar skuldir hvíla eða hvíldu á móðurfélaginu Northern Travel Holding en við stofnun þess námu skuldir þess um tuttugu milljörðum íslenskar króna.

Á móti því standa eignir Northern Travel Holding, þ.e. Sterling, sem rekið hefur verið með tapi, Iceland Express. Astreus í Bretlandi og ferðaskrifstofan Hekla Travel.