Sterling skilaði tapi upp á 145 milljónir danskra króna eftir skatta, sem er í kringum 1,7 milljarðar íslenskra króna. Þetta segist danska dagblaðið Berlingske Tidende hafa lesið úr ársuppgjöri FL Group.

Almar Örn Hilmarsson, forstjóri Sterling, segir í samtali við Berlingske vera mjög hissa á slæmu uppgjöri en lofar því að félagið skili hagnaði á árinu 2007.

"Já, ég er hneykslaður á ársuppgjörinu, því mitt markmið var að Sterling skilaði hagnaði í fyrsta skipti í mörg ár,? sagði Almar.

Í ársuppgjöri FL Group kemur fram að Sterling hafi skilað tapi upp á 200 milljónir danskra króna. Samkvæmt uppjörinu var velta Sterling 4,079 milljarðar danskra króna, eða 48,5 milljarða íslenskra króna.

Þegar Berlingske Tidende kynnti Almari Erni ársuppgjör FL Group tók hann það fram að Sterling sé enn ekki búið að skila endanlegu ársuppgjöri.

Sterling var selt í desember síðastliðnum í þriðja skiptið á tveimur árum. FL Group seldi þá Sterling til Northern Travel Group fyrir 20 milljarða íslenskra króna. Hluthafar Nothern Travel Holding eru Fons (44%), FL Group (34%) og Sund (22%).

Berlingske segir frá því að Hannes Smárason hafi greint frá því fyrir ári síðan að Sterling myndi skila hagnaði upp á 345 milljónir danskra króna árið 2006, sem samsvarar 4,1 milljarði íslenskra króna.

Það þýðir að félagið skilaði uppgjöri upp á nálægt sex milljörðum undir þeim væntingum sem FL Group hafði gert til Sterling í byrjun árs 2006.

Berlingske greinir frá því að Sterling hafi skilað samanlögðu tapi frá árinu 2001 upp á 10,3 milljarða íslenskra króna.