Stjórn Fjármálaeftirlitsinsmun fjalla um málefni Íbúðalánasjóðs á fundi sínum 6. október samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Miklar breytingar hafa verið á stjórninni og hafa sex stjórnarmenn sagt sig úr henni síðan í lok september í fyrra. Nú síðast hætti Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem hafði setið í stjórninni síðan í desember.

Þann 24. september í fyrra skipaði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, nýja fimm manna stjórn Íbúðalánasjóðs. Aðeins tveir stjórnarmenn hafa setið allan tímann eða þau Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, sem er formaður stjórnarinnar í dag, og Haukur Ingibergsson, fyrrverandi forstjóri Fasteignamats ríkisins.

Í uppsagnarbréfi Steinunnar Valdísar segir: „Í samræmi við lög um Íbúðalánasjóð setti stjórn sér starfsreglur þar sem fram kemur að „stjórn fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins og skal sjá um að skipulag sjóðsins og starfsemi sé jafnan í góðu horfi og í samræmi við lög og reglur sem gilda um sjóðinn. Þannig skal stjórnin fjalla um allar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi hans“. Að mínu mati er augljóst að stjórnun sjóðsins er ekki með þeim hætti sem hér er sett fram.“

Steinunn Valdís segir enn fremur í bréfinu „á þeim tíma sem ég hef setið í stjórn ÍLS hef ég upplifaðþað að stjórnin er á engan hátt stefnumarkandi í stórum málum sem snerta framtíð Íbúðalánasjóðs. Þá hafa ákvarðanir verið teknir um starfsemi sjóðsins án aðkomu stjórnar. Stórar ákvarðanir og raunveruleg stefnumörkun fer því fram annars staðar en á vettvangi stjórnar. Á sama tíma hvílir mikil ábyrgð á stjórnarmönnum ÍLS án þess að þeir komi í reynd að ýmsum stefnumarkandi ákvörðunum. Ábyrgð stjórnarfólks í fjármálastofnunum er mikil og stjórnun sjóðsins ekki í samræmi við góða stjórnarhætti eins og þeir birtast m.a. í leiðbeiningum Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .