Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á fundi sínum í dag að boða til eigendafundar að viku liðinni til að fjalla um málefni Reykjavik Energy Invest. Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Orkuveitunnar, hefur umboð stjórnar til viðræðna við aðra hluthafa í REI og þá sem aðild áttu að samruna þess og Geysis Green Energy. Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð. Bryndís segir tímabært að eigendur OR komi saman vegna útrásarverkefna fyrirtækisins.