Stjórn VR birtir í dag yfirlýsingu á vef félagsins þar sem stjórnin segist vera orðin langþreytt á rangfærslum og ómálefnalegum málflutningi þeirra sem segjast vilja breytingar í stjórn félagsins en nokkrir félagsmenn í VR hafa boðað mótframboð til stjórnar VR.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar kemur fram að fjölmiðlar hafi birt viðtöl við talsmann hópsins, Lúðvík Lúðvíksson, og þar hafi hann farið mikinn um hversu flókið sé að bjóða fram og kennt starfsmönnum VR um vankunnáttu sína í þeim efnum.

„Hverjum þeim sem stýra vill 28 þúsund manna félagi verður að vera ljóst að hann verður að treysta á eigin burði til að kynna sér lög og reglur,“ segir í yfirlýsingu stjórnarinnar.

„Öllum félagsmönnum er að sjálfsögðu frjálst að leggja fram nýjan framboðslista en hann verður að vera í samræmi við lög VR. Enginn starfsmaður VR getur breytt nokkru þar um - er aðeins hægt að breyta lögum félagsins á aðalfundi.“

Sjá nánar vef VR.