Stjórnarmenn Glitnis Holdco, sem eru þrír talsins, geta fengið hundruð milljóna króna í bónusgreiðslur frá félaginu eftir því hvernig gengur að innheimta kröfur og greiða þær út til kröfuhafa Glitnis.

Kemur þetta fram í skjali, sem lagt verður fyrir hluthafafund Glitnis Holdco á miðvikudaginn, en skjalið ber heitið Long Term Incentive Plan (LTIP). Skjalið, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er merkt „confidential“ og er óheimilt að greina frá innihaldi þess.

Kemur þar fram að ef greiðslur til kröfuhafa fara yfir 1,17 milljarða evra, andvirði um 164,2 milljarða króna, eigi stjórnarmenn og æðstu stjórnendur Glitnis, að fá hluta af því sem eftir stendur. Eiga þeir að fá 20% af því sem innheimtist á milli 1,17 og 1,23 milljarða evra og verði heimtur enn meiri eiga þeir að fá 15,5% af því sem innheimtist yfir 1,23 milljarði evra.

Fari svo að seinna markinu verði náð, þ.e. að útgreiðslur til kröfuhafa nái nákvæmlega 1,23 milljarði evra munu stjórnendur og stjórnarmenn skipta á milli sín 1,7 milljarði króna. Mike Wheeler, stjórnarformaður, fær þá í sinn hlut 443,7 milljónir króna, hinir stjórnarmennirnir tveir Tom Grøndahl og Steen Parsholt, fá 406,3 milljónir hvor og þá má stjórnin dreifa allt að 443,7 milljónum króna til æðstu stjórnenda Glitnis.

Þetta er háð því að heimtur verði að minnsta kosti 1,23 milljarðar evra, en þóknanir stjórnarmannanna gætu einnig orðið meiri ef heimtur fara yfir 1,23 milljarða evra.

DV greindi áður frá launakjörum stjórnarmannanna þriggja, en Wheeler mun fá um 70 milljónir króna árlega fyrir sín störf og þeir Parshold og Grøndahl fá um 50 milljónir króna. Í LTIP skjalinu segir ennfremur að vinni stjórnarmenn fleiri daga en 72 á hverju ári eigi þeir að fá 7.000 evra greiðslu fyrir hvern dag umfram þessa 72. Jafngildir það um 985.000 krónum á dag.