Samkvæmt frétt Guardian í dag hefur orðið vart við illindi milli manna í stjórn Bear Stearns, en stjórnendur kenna hver öðrum um hrun bankans. Fyrrverandi stjóri bankans, Alan Greenberg, segir stjórnarformanninn, Jimmy Cayne, hafa hundsað viðvaranir þegar lánsfjárskrísan fór að þrengja að.

„Jimmy hafði ekki áhuga á mínum sjónarmiðum“ sagði Greenberg við New York Times. „Þetta var einleikur af hans hálfu, hann hlustaði ekki á neinn.“

Greenberg og Cayne hafa unnið saman frá því að Greenberg réði þann síðarnefnda til starfa árið 1969. Þeir mynduðu að sögn Guardian eitt öflugasta teymi í sögu Wall Street. Nú hefur hins vegar slest upp á vinskapinn, en t.d. þurfti Cayne að borga 77.000 Bandaríkjadali í þjónustugjöld þegar hann seldi sinn eigin hlut í Bear Stearns á dögunum, en hingað til hefur hámarksgjald sem starfsmenn hafa þurft að greiða verið 2.500 dalir.

Cayne er sagður hafa leitað sér huggunar í trú eftir hrun bankans og hafa lokað sig af, en hann hefur nú aðeins samskipti við sína nánustu samstarfsmenn. „Þetta leggst þungt á sálina í mér“ hefur Cayne tjáð vinum sínum.

Samherjar Cayne hafa neitað því að Greenberg hafi varað við að vandræði væru í aðsigi á sínum tíma.