Stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru bjartsýnni á horfur í íslensku hagkerfi til næstu tólf mánaða en þeir voru í desember 2013. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar MMR . 81,1% þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni telja að íslenska hagkerfið muni vaxa á næstu tólf mánuðum, samanborið við 58,9% í desember 2013.

Þá sýna niðurstöður einnig að fleiri stjórnendur eiga von á að velta, arðsemi og eftirspurn eftir vöru/þjónustu aukist á næstu 12 mánuðum en í síðustu mælingu í desember. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 66,8% telja að velta muni aukast hjá sínu fyrirtæki á næstu 12 mánuðum, samanborið við 60,7% í desember. 65,5% sögðust telja að eftirspurn eftir vöru/þjónustu fyrirtækisins myndi aukast á næstu 12 mánuðum, borið saman við 55,0% í desember.

Þá töldu 52,3% að arðsemi fyrirtækisins myndi aukast á næstu 12 mánuðum, en 43,7% svarenda voru á þeirri skoðun í desember.

728 stjórnendur íslenskra fyrirtækja svöruðu könnuninni sem var framkvæmd 20. júní-1. júlí.