Stjórnendur þýska risabankans Deutsche Bank eru sagðir íhuga að segja upp allt að eitt þúsund starfsmönnum á eignastýringarsviði bankans í skugga þess að umfangið hefur dregist mikið saman. Deutsche Bank er umsvifamesti banki Evrópu. Bloomberg-fréttaveitan segir uppsagnirnar verða utan Þýskalands. Starfsmenn Deutsche Bank eru tæplega 32 þúsund talsins.

Ef af verður bætast uppsagnirnar við 500 manns sem tóku poka sína í október í fyrra. Bankinn er fjarri því sá eini sem hefur þurft að segja upp fólki.

Samkvæmt samantekt fréttaveitunnar var 107 þúsund starfsmönnum fjármálafyrirtækja sagt upp í Evrópu í fyrra. Það sem af er ári hefur verið tilkynnt um talsvert færri uppsagnir eða 20 þúsund manns.