Stjórnendateymi Virgin Media munu fara á mis við bónusgreiðslur sem nema allt að því 75% af grunnlaunum þeirra, en Telegraph greinir frá þessu í dag. Ástæðan er sögð vera samdráttur í hagnaði, sem hlýst ekki síst af harðri samkeppni við BskyB á ljósleiðaramarkaðnum.

Virgin Media náði ekki hagnaðarmarkmiðum sínum á síðasta ári, og þess vegna munu engir starfsmenn fá venjubundnar bónusgreiðslur. En vegna þess að síðasti fjórðungur var sá besti frá stofnun félagsins hefur verið ákveðið að veita undirmönnum og óbreyttum starfsmönnum óskilgreind verðlaun. Um 12.000 manns vinna hjá Virgin og munu flestir þeirra fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Neil Berkett var gerður að forstjóra fyrirtækisins fyrir stuttu, en hann hlýtur engar umframgreiðslur að þessu sinni. Aðrir stjórnendur hafa gefið upp á bátinn kaupréttarsamninga til að styrkja rekstur Virgin.