Breytingar í atvinnulífinu hafa verið til hins betra upp á skíðkastið og telja mun fleiri nú en áður að aðstæður muni batna næsta hálfa árið, að því er fram kemur í stjórnendakönnun Samtaka atvinnulífsins á meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Að jafnaði vænta þeir 3% verðbólgu næstu 12 mánuði og 3,5% verðbólgu eftir tvö ár. Þetta er talsverð lækkun frá síðustu könnun þegar verðbólguvæntingar voru á bilinu 4-5%. Mat stjórnendanna er jákvæðara en það hefur verið frá árinu 2007.

Á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunarinnar er að þeir telji nægt framboð af starfsfólki. Helst virðist þó vanta starfsfólk í byggingarstarfsemi og sérhæfðri þjónustu. Í heild gera stjórnendur ráð fyrir 0,5% fjölgun starfsmanna næstu sex mánuði.

Flestir stjórnendur búast við að gengi krónunnar stöðugt næstu 12 mánuði og að stýrivextir Seðlabankans verði óbreyttir. Þetta eru helstu niðurstöður könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja. Könnunin var gerð í þessum mánuði.