Óvissa ríkir um gæði eignasafna bankanna, um áhrif fyrirhugaðra breytinga á stjórnkerfi fiskveiða á fjármálastöðugleika og hægar hefur gengið við endurskipulagningu útlána en búist var við. Þetta er meðal þeirra þátta sem bent er á í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika, riti Seðlabankans.

Seðlabankinn Fundur 31.05.11
Seðlabankinn Fundur 31.05.11
© BIG (VB MYND/BIG)
Bankinn upplýsir að fram að þessu hafi endurskipulagning útlána að mestu falist í framlengingu lána. Tryggvi Pálsson, ritstjóri Fjármálastöðugleika, lagði áherslu á það á kynningarfundi í húsakynnum Seðlabankans að flýta þurfi þessari vinnu. Hann velti því upp hvort tregða væri meðal bankanna að ganga á undan þegar kemur að því að setja ólífvænleg fyrirtæki í greiðsluþrot.

Í Fjármálastöðugleika segir að bankarnir hafi haft svigrúm til endurskipulagningar útlána, þar sem lánin voru færð yfir til þeirra með verulegum afföllum frá gömlu bönkunum. Seðlabankinn dregur þó úr og segir að lagaleg óvissa, þ.m.t. hugsanleg breyting á lögum um stjórn fiskveiða, takmarki svigrúmið að einhverju leyti. Að auki segir bankinn að óvissa ríki um raunverulega eiginfjárstöðu bankanna vegna óvissu um gæði eignasafna. Stærstur hluti eigna viðskiptabankanna eru útlán og nam bókfært virði þeirra um 1.700 milljörðum króna í lok síðasta árs. Um 56% þeirra voru til fyrirtækja og 25% til heimila. Af fyrirtækjalánunum var um fjórðungur til sjávarútvegsfyrirtækja.

Tryggvi Pálsson sagði þá áhættuþætti sem eru tilteknir í nýjasta hefti Fjármálatíðinda vera líka þeim í síðustu skýrslu. Gæði eigna innlánsstofnana eru enn bundin óvissu, þótt óvissa vegna gengisbindinga hafi minnkað. Þar hefur nýr óvissuþáttur komið til, sem er eins og áður segir fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.