Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa ákveðið að minnka olíuframleiðslu sína enn frekar þann 1. febrúar næstkomandi. Mun samdrátturinn nema 158.000 olíutunnum á dag og er hann liður í víðtækari herferð OPEC-ríkjanna til að minnka olíubirgðir sínar sem jukust mikið á síðasta ári vegna minni eldsneytiseftirspurnar á heimsmarkaði.

Eftir þessa skerðingu hefur olíuframleiðsla Sádi-Arabíu minnkað um eina milljón tunna á dag yfir sex mánaða tímabil. Þau tíu ríki innan OPEC samtakanna sem hafa skuldbundið sig til að minnka olíframleiðslu sína framleiddu samtals 27,5 milljónir tunna á dag í september síðastliðnum.

Eftir að niðurskurðurinn tekur gildi mun framleiðslan hins vegar minnka niður í 25,8 milljónir tunna á dag - en um 85 milljónir olíutunna eru á heimsmarkaði á degi hverjum.

Þrátt fyrir þessar fyrirhuguðu aðgerðir lækkaði heimsmarkaðsverð á olíu í gær um 1,41 Bandaríkjadal, eftir að sendiherra Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum fullyrti að núverandi olíuframleiðsla væri "nægileg til að uppfylla þarfir bæði framleiðslu- og neytendaþjóða heimsins".