Virkjanaleyfi Reykjanesvirkjunar vegna stækkunar og uppsetningar nýrrar 50 megavatta aflvélar er enn ekki í höfn þrátt fyrir að aflvélin komi til landsins eftir um mánuð. Virkjanaleyfi Reykjanesvirkjunar miðast nú við 100 MW og þar eru nú starfræktar tvær 50 MW vélar. Rammaáætlun, sem m.a. tekur á nýtingu háhitasvæða, er nú í kynningarferli. Þar er enn stuðst við það mat sérfræðinga að hágildi rafafls á svæði Reykjanesvirkjunar sé 81 megavatt (MW) ef svæðið eigi að endast í 50 ár. Er 50 MW stækkun virkjunarinnar þegar orðin ári á eftir áætlun. Ef virkjanaleyfi vegna nýrrar aflvélar fæst á næstunni er talið að hún geti verið komin í gagnið í lok næsta árs.

Rammaáætlun truflar ekki

Lárus Ólafsson, lögfræðingur Orkustofnunar sem gefur út virkjanaleyfi, sagðist lítið geta tjáð sig um málið að svo stöddu þar sem það sé enn í vinnslu. Hann telur þó ólíklegt að rammaáætlun trufli leyfisveitingarferlið vegna Reykjanesvirkjunar. Í henni sé einungis um að ræða mat á mögulegri afkastagetu sem erfitt geti verið að staðfesta með óyggjandi hætti. Þá sé HS Orka einungis að sækja um stækkun á núverandi virkjun og auka þar með nýtingu og á svæði sem þegar er búið að raska. Lárus segir þó að óskað hafi verið eftir frekari gögnum frá HS Orku m.a. varðandi virkjanasvæði orkuversins.

AflvéliN frá Fuji Electric ekki Mitsubishi

Þess má geta að 50 MW aflvélin sem væntanleg er til landsins er smíðuð af Fuji Electric í Japan en ekki Mitshubishi eins og ranglega var sagt í frétt Viðskiptablaðsins í dag. Þessi tvö fyrirtæk kepptu reyndar um aflvélaframleiðsluna yfir Reykjanesvirkjun á sínum tíma.  Það eru Bræðurnir Ormson sem eru með umboð fyrir Fuji Electric á Íslandi. Beðist er velvirðingar á þessum misskilningi.

Sjá nánar um málið í Viðskiptablaðinu í dag.