Íslensk verðbréf í samvinnu við Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV og RU ráðgjöf hafa nú lokið fyrsta áfanga fjármögnunar á nýjum fagfjárfestasjóði. Sjóðurinn heitir Veðskuldabréfasjóður ÍV og mun fjárfesta í skuldabréfum sem tryggð eru með veði í tekjuberandi atvinnu- og íbúðarhúsnæði.

Nú þegar hefur verið aflað skuldbindinga fyrir um 7 milljarða króna í sjóðinn og eru fjárfestar flestir af helstu lífeyrissjóðum landsins. Um fagfjárfestasjóð er að ræða sem Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV mun reka og er þetta annar veðskuldabréfasjóðurinn í rekstri félagsins.

Sjóðurinn mun fjárfesta í skuldabréfum sem tryggð eru með veði í atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Sjóðurinn tekur formlega til starfa í ársbyrjun 2014. Viðtökur fjárfesta hafa verið góðar og enn er möguleiki fyrir áhugasama að bætast í hópinn.

Íslensk verðbréf hf. er sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem hefur þjónað einstaklingum og fagfjárfestum frá árinu 1987. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Sveinn Torfi Pálsson.

Rekstrarfélag verðbréfasjóða ÍV hf. er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem rekur verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Framkvæmdastjóri þess er Jón Helgi Pétursson.

RU ráðgjöf sérhæfir sig í ráðgjöf fasteignatengdra verkefna. Framkvæmdastjóri félagsins er Ragnar Lárus Kristjánsson.