Stofnfé í Byr sparisjóði verður fært niður um a.m.k. 90% við það að ríkissjóður leggi sjóðnum til 10,75 milljarða í eigið fé til þess að styrkja stöðu sjóðsins, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ríkið verður eigandi sjóðsins að langstærstum hluta samkvæmt fyrrgreindum tillögum og hugsanlega að öllu leyti. Jón Finnbogason, sparisjóðsstjóri Byrs, segir endurskipulagninguna á lokastigi. "Fjárhagsleg endurskipulagning Byrs er í þeim farvegi að kröfuhafar eru með erlendum ráðgjafa að fara yfir gögn sem eru til grundvallar þeim tillögum sem liggja fyrir kröfuhöfum. Það má búast við niðurstöðu í þeim efnum á næstu dögum eða vikum."

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að endurskipulagning Byrs sé í þeim fasa að stífir fundir hafi átt sér stað með innlendum kröfuhöfum sjóðsins undanfarna viku. Þá sé að vænta skýrslu frá þekktu erlendu ráðgjafarfyrirtæki sem á vegum erlendra kröfuhafa Byrs hefur verið að fara yfir gögn um sparisjóðinn. Þegar sú skýrsla liggur fyrir, sem gæti orðið á næstu dögum, mun niðurstaða hennar verða lögð fyrir lánanefndir stærstu erlendu kröfuhafa Byrs, sem eru að mestu þýskir bankar. Lánanefndir þeirra funda á þriðjudögum og því gæti skýrsla um málefni Byrs verið til umræðu hjá þeim í næstu viku.

Miklir hagsmunir Íslandsbanka Íslandsbanki á töluverðra hagsmuna að gæta vegna endurskipulagningar Byrs. Tengjast þeir stofnfjáraukningu í sjóðnum árið 2007 sem Glitnir fjármagnaði að stórum hluta. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að heildarupphæð lána sem nú væru í bókum Íslandsbanka, sem tengdust stofnfjáraukningu í Byr, næmu 10 milljörðum að nafnvirði. "Við höfum þegar frestað því tvisvar að setja þessi lán í innheimtu, og höfum viljað sjá hvað felst í þessari endurskipulagningu áður en næstu skref eru tekin," sagði Birna. Samtals er Íslandsbanki með lán til 487 einstaklinga vegna stofnfjáraukningarinnar í Byr í sínum bókum, og lán 24 félaga. Ekki liggur fyrir á hvaða verði þessi lán voru færð yfir til Íslandsbanka frá Glitni en að meðaltali  voru lán gömlu bankanna færð yfir til þeirra nýju með 44% afslætti, eins og upplýst hefur verið um í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Stofnfjáreigendur í Byr, sem fengu lán hjá Glitni til þess að auka stofnfjáreign sína, hafa átt í deilum við bankann vegna þess að þeir telja bréfin í Byr aðeins vera að veði fyrir lánunum. Sú deila hefur ekki enn komið til kasta dómstóla en mun að líkindum enda þar, ef fram heldur sem horfir.  Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir marga þá sem tóku lán. Lánin eru oftar en ekki í erlendri mynt, sem hafa hækkað mikið vegna gengisfallsins, á móti verðlítilli eign í stofnfjárbréfunum.