Fjárfestirinn Niels K. Thygesen hefur selt 6,3% hlut sinn í Keops fjárfestingafélaginu. Að því er kemur fram í danska viðskiptablaðinu Børsen þá er fasteignafélagið Stoðir kaupandi. Stoðir hafa sem kunnugt er lýst yfir vilja sínum til að yfirtaka Keops og afskrá félagið úr dönsku kauphöllinni. Kaupin á hlut Thygesen, sem var áður stjórnandi hjá Keops, verða að skoðast sem liður í því.

Thygesen átti 11,6 milljónir hluta og miðað við lokaverð gærdagsins 23,8 þá ætti hann að hafa fengið um það bil 276 milljónir danskra króna fyrir hlutinn.

Stoðir hafa þegar tryggt sér 62% hlutafjár en það eru hlutir sem hafa verið í eigu Baugs og fjárfestingafélagsins Fons, sem er í eigu Pálma Haraldssonar fjárfestis.

Að því er kemur fram í Børsen er Niels K. Thygesen síðasti stóri hluthafinn og því ekkert talið því til fyrirstöðu að afskrá félagið. Til þess þurfa Stoðir að ná 90% hlutafjár. 29. júní síðastliðin lögðu Stoðir fram tilboð upp á 24 krónur á hlut.