Stoðir (áður FL Group) hafa gengið frá sölu á 34,8% eignarhlut sínum í Northern Travel Holding (NTH).

Kaupandinn er Fons hf. sem á nú allt hlutafé í NTH. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stoðum.

„Samhliða sölu eignarhlutarins hefur farið fram uppgjör á hluthafaláni Stoða til Northern Travel Holding og eru því engin fjárhagsleg tengsl milli Stoða og NTH eftir viðskiptin,“ segir í tilkynningunni.

„Í uppgjöri Stoða fyrir annan ársfjórðung 2008 var verðmæti eignarhlutarins í NTH og hluthafalánsins endur-metið í ljósi þessara viðskipta. Viðskiptin hafa því engin áhrif á afkomu Stoða á seinni hluta 2008,“ segir enn fremur.

„Salan er í samræmi við stefnu sem mörkuð var í árslok 2007 þar sem m.a. var ákveðið að draga félagið úr fjárfestingum í flugrekstrarfélögum. Í kjölfarið voru 9,1% hlutur í American Airlines og 24,2% hlutur í Finnair seldir.  Með sölu eignarhlutarins í NTH hafa Stoðir alfarið dregið sig úr fjárfestingum í flugrekstri.“

Þá kemur fram að Stoðir leggja nú áherslu á fjárfestingar í félögum á sviði fjármála- og tryggingaþjónustu, rekstri fasteigna og smásölu.

„Stoðir eiga m.a. 32% hlut í Glitni banka, 99% hlut í Tryggingamiðstöðinni, 39,8% hlut í Landic Property ásamt því að unnið er að frágangi á kaupum á 39% hlut í Baugi, auk annarra skráðra og óskráðra fjárfestinga, innan lands sem utan,“ segir í tilkynningu Stoða.