Mænuskaðastofnun Íslands stendur þessa dagana fyrir landssöfnun sem nær hápunkti með sjónvarpsþætti á Stöð 2 föstudagskvöldið 19. september.

Stoðir (áður FL Group) eru bakhjarl landssöfnunarinnar og standa straum af öllum kostnaði við hana. Allt fé sem safnast mun því renna óskert í málstaðinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stoðum.

„Frumkvæði Auðar Guðjónsdóttur og hetjuleg barátta hennar vakti aðdáun okkar og var hvatinn að þátttöku og stuðningi okkar,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða.

„Við erum stolt af því að styðja hana áfram í hennar frumkvöðlastarfi í leit að lækningu mænuskaða. Ég hvet alla, einstaklinga sem fyrirtæki, til að styrkja Mænuskaðastofnun og stuðla þannig að því að lausn finnist við einni mestu ráðgátu læknavísindanna”.

Í tilkynningunni kemur fram að Stoðir voru einn af stofnendum Mænuskaðastofnunar Íslands sem stofnuð var í desember 2007 að frumkvæði Auðar Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðings og dóttur hennar, Hrafnhildar Thoroddsen, sem lamaðist í bílslysi árið 1989.

Síðan þá, í tæpa tvo áratugi, hefur Auður barist fyrir réttindum mænuskaðaðra um allan heim og m.a. staðið fyrir alþjóðlegu málþingi sérfræðinga um mænuskaða og starfrækt Gagnabanka um mænuskaða í samstarfi við íslensk heilbrigðisyfirvöld og Alþjóðlegu heilbrigðistofnunina (WHO), auk þess að stofna til Mænuskaðastofnunar Íslands.

Markmið Mænuskaðastofnunar Íslands er að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að lækning á mænuskaða verði að veruleika. Afrakstur landssöfnunarinnar verður notaður til að vekja athygli á mænuskaða á alþjóðavettvangi og styrkja rannsóknir og aðgerðir sem leiða til fjölbreyttari meðferðarúrræða.

Almenningur getur lagt málefninu lið með því að hringja í símanúmerin 904-1000, 904-3000 og 904-5000 og verður þá upphæðin sem myndar seinni hluta símanúmersins gjaldfærð á símareikning þess sem gefur.

Þá kemur fram í tilkynningunni að Stoðir greiða allan kostnað vegna landssöfnunarinnar, s.s. vegna framleiðslu og birtingu auglýsingaefnis og kostnað við sjónvarpsþátt á Stöð 2. Allt fé sem safnast mun því renna óskert til verkefna Mænuskaðastofnunar Íslands. Stoðir hafa einnig greitt annan kynningarkostnað Mænuskaðastofnunar Íslands.

Heildarframlag Stoða til verkefnisins sl. ár nemur ríflega 15 milljónum króna