*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 5. október 2019 17:02

Stoltastur af endurreisn bankanna

Fyrrverandi seðlabankastjóri segist strax hafa séð alvarlega meinbugi á áætlun AGS um endurreisn bankanna.

Kristján Torfi Einarsson
Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands, var í 2 ár að skrifa bókina ‚Í víglínu íslenskra fjármála‘ sem fjallar í senn um veru hans í Seðlabankanum og hrunsögu Íslands.
Eyþór Árnason

Svein Harald Øygard sat í stól seðlabankastjóra Íslands í sex mánuði og viðfangsefnin voru næg því eins og hann bendir á þá reið yfir Ísland skuldakreppa, gjaldeyriskreppa, bankakreppa og fjárhagskreppa á sama tíma. En hvejru er Svein Harald stoltastur af þegar hann lítur til baka?

„Ætli ég verði ekki að segja samningarnir við kröfuhafa bankanna og endurreisn nýju bankanna. Þegar ég kom hafði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn dregið upp áætlun um hvernig haga ætti endurreisn bankana og greiða kröfuhöfum skuld sína.

Í stuttu máli þá gekk áætlunin út á að ríkið myndi eignast alla bankana og greiða kröfuhöfum með skuldabréfi. Þegar ég kem að málinu voru bæði stjórnmála- og embættismenn ákveðnir í að fylgja áætlun AGS og voru tilbúnir að fara þessa leið.

Ég sá hins vegar strax alvarlega meinbugi á þessari áætlun og leist ekki á blikuna. Fyrir það fyrsta var engin leið til þess að verðleggja bankana og lánasafn þeirra og því ógjörningur að setja verðmiða á skuldabréfið til kröfuhafanna. Þetta hefði þýtt að eigið fé bankanna hefði orðið að engu þar sem það átti í raun að vera í eigu kröfuhafanna í formi skuldabréfsins. Bankarnir hefðu þá ekki verið nægilega vel fjármagnaðir til þess að sinna hlutverki sínu í endurreisn hagkerfisins.

Þá leist mér ekki á að bankarnir yrðu allir í eigu ríkisins í ljósi þeirrar miklu vinnu sem framundan var við að endurskipuleggja skuldir bæði heimila og fyrirtækja. Og svo má ekki gleyma að stærsti hluti allra fyrirtækja í landinu var gjaldþrota og því í raun í eigu bankanna. Ríkið hefði því orðið eigandi nær allra fyrirtækja  landsins, auk bankanna, og það þarf ekki að hafa mörg orð um þær hættur sem felast í slíku umhverfi.

Ég tók harða afstöðu gegn þessari áætlun og lagði til að í stað þess að greiða kröfuhöfunum með ríkisskuldabréfi yrðu þeir hluthafar í bönkunum. Þannig myndu þeir fá greitt, þótt síðar yrði, í samræmi við raunverulegt virði nýju bankanna. Auk þess getur verið gott að hafa erlenda bankamenn í eigendahópnum sem hafa hagsmuni af því að verðmæti lánasafna þeirra sé hámarkað og láta ekki stjórnast af pólitískum sjónarmiðum,“ segir Sven Harald Øygard.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.