Störfum í Bandaríkjunum fjölgaði um 144 þúsund í ágúst, en almennt var reiknað með 150 þúsund nýjum störfum skv. könnun Bloomberg. Á þetta er bent í Morgunkorni Íslandsbanka. Þá voru birtar endurskoðaðar tölur sem sýndu að störfum fjölgaði jafnframt um 73 þúsund í júlí í stað 32 þúsund eins og fyrri tölur gáfu til kynna. Þrátt fyrir að fjölgun starfa hafi reynst lítillega undir meðalspá þykja tíðindin jákvæð. Eftirspurn á vinnumarkaði virðist nú hafa aukist nokkuð eftir fremur rólega sumarmánuði, en lítil fjölgun starfa hefur valdið vonbrigðum síðustu mánuði.

Atvinnuleysi mældist 5,4% í ágúst og hefur ekki verið minna frá því í október 2001. Niðurstaðan er talin auka líkurnar á vaxtahækkun Seðlabanka Bandaríkjanna síðar í september. Stýrivextir bankans eru nú 1,5% og hafa verið hækkaðir á síðustu tveimur fundum. Gengi dollara hækkaði gagnvart helstu myntum í kjölfar tíðindanna af vinnumarkaði.