Nýr fjármálaráðherra Póllands skaut föstum skotum að Tesco í síðustu viku þegar hann sagði að alþjóðlegar stórmarkaðskeðjur væru ekki velkomnar til landsins. Þetta kemur fram í Financial Times.

Tereas Lubinska segir að breska stórmarkaðskeðjan væri dæmi um fjárfestingu sem skilaði sér ekki til Pólverja og væri því ekki óskað í Póllandi. Hún bætti við að hafa barist á móti verslunarkeðjunni í bænum Szcezecins, þegar hún var þar borgarstjóri, af því að þessir stórmarkaðir væru að eyðileggja verslunarkjarna í bænum og gera minni smásala gjaldþrota. "Stórmarkaðir eins og Tesco eru ekki fjárfesting. Ég meina með því að þeir skipta ekki miklu máli varðandi hagvöxt," sagði hún.

Tesco, sem er stærsta stórmarkaðskeðja Bretlands, hóf starfsemi í Póllandi 1996 og hefur fjárfest í landinu fyrir um 1 milljarð punda í 44 stórmörkuðum og 36 minni búðum. Fyrirtækið veitir 20.000 Pólverjum atvinnu og horfir til útvíkkunar starfseminnar í Austur-Evrópu sem mjög mikilvægs þáttar í vexti fyrirtækisins.

Tesco hefur uppi áætlanir um að opna 5 nýjar verslanir í Póllandi á þessu ári og fyrirtækið gaf nýlega út tilkynningu þar sem það vænti þess að halda áfram að vaxa í landinu.

Lubinska sagði að Pólland þyrfti að einbeita sér að búa til störf í framleiðslu og kallaði stórmarkaðina "einfaldasta fjárfestingarformið" af því að þeir búa til fremur ósérhæfð störf. "Vandamál Póllands er að við verðum að framleiða meira sjálf," sagði hún.