Linda Björk Waage hefur starfað hjá Nýherja frá árinu 2011, nú síðast sem forstöðumaður þjónustuborðs og UT rekstrar, en nú tekur hún við framkvæmdastjóri Umsjár, nýs sviðs sem mun sjá um rekstrarþjónustu og innviði.

„Ég hef verið forstöðumaður fyrir helmingnum af sviðinu, en nú bætist innviðaþjónustan svo við erum nú orðin að heildarþjónustu fyrir fyrirtæki á einu sviði. Hlutverk sviðsins er að reka tölvukerfi fyrirtækja, hvort sem þau eru í hýsingu hjá okkur eða staðsett hjá fyrirtækjunum sjálfum,“ segir Linda, sem er spennt fyrir að takast á við nýtt hlutverk.

„Ég hef mjög gaman af því sem nýtt er og að skoða allar tækninýjungar sem eru á leiðinni, sem ég held að sé ástæðan fyrir að maður ílengist í þessum geira. Það ríkir engin stöðnun á þessu sviði.“

Linda segist vera alæta á lestur. „Það fer bara eftir því í hvernig skapi ég er í, hvort ég les reyfara, fagblöð eða mannkynssögu, sem ég hef mikinn áhuga á, en ég er stórnotandi á Amazon,“ segir Linda. „Ég hef sérstakan áhuga á fornsögunni, frá því svona 500 árum fyrir Krists burð og fram á miðaldir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .