Samkomulag náðist í Evrópuþinginu seint á miðvikudagskvöld um hörðustu takmarkanir á bónusgreiðslum til starfsmanna fjármálafyrirtækja í ESB frá hruninum 2008. Samkomulagið felur í sér að kaupaukar og bónusar mega ekki vera hærri en sem nemur reglulegum launum viðkomandi starfsmanns og er reglan því kölluð 1:1 reglan.

Samkomulagið er ákveðið áfall fyrir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, en Bretar höfðu háð harða baráttu fyrir því að mörkin yrðu hærri. Reyndar gerir samkomulagið ráð fyrir því að fjárhæð bónusa megi vera allt að tvöföld fjárhæð launa ef hluthafafundur gefur skýra heimild fyrir því.

Reglurnar hafa ekki tekið gildi og áður en það gerist verða þær teknar fyrir á fundi fjármálastefnuráðs Evrópusambandsins, Ecofin. Þar verður samningaviðræðum haldið áfram.