Félag í helmingseigu Straums fjárfestingarbanka [ STRB ] var sérlegur fjárhagslegur ráðgjafi við kaup á einum stærsta  framleiðanda frystra matvæla í Evrópu sem greint var frá í dag. Um er að ræða kaup Lion Capital á Foodvest, en það félag er í eigu Capvest.  Ráðgjafi Lion Capital varðandi kaupin var Stamford Partners í Englandi, en Straumur á rétt rúmlega 50% hlut í fyrirtækinu.

Samkvæmt fréttavef Thomson Financial telja markaðssérfræðingar að verðmæti viðskiptanna sé yfir 1 milljarð punda, eða um 160 milljarða íslenskra króna. Þar með er um að ræða stærstu kaup framtakssjóðs á þessu sviði í Bretlandi það sem af er árinu. J.P. Morgan Chase & Co. fjármagnar kaupin, en gert er ráð fyrir að gengið verði frá þeim í september nk.

Velti 158 milljörðum í fyrra

Foodvest hefur ráðandi markaðshlutdeild í Bretlandi á sínu sviði, Norðurlöndunum og Frakklandi, ásamt því að hafa haslað sér völl í Mið- og Austur-Evrópu að undanförnu. Starfsmenn fyrirtækisins eru 6000 talsins í fimm löndum og var velta þess á liðnu ári um 1 milljarður punda, eða sem nemur um 158 milljörðum króna.

Lion Capital hefur fjárfest mjög í matvælaiðnaði og hafa framtakssjóðir þess fjárfest tæplega 4,5 milljarð evra í verkefnum sem nema um 17 milljörðum evra að verðmæti.

Réðu heilt vegna kaupa á Advang

Þess má einnig geta að fyrir um viku náðust samningar um kaup Lion Capital á félaginu Advang Holding (Ad van Geloven), en það félag á vörumerkið Mora, sem hefur ráðandi markaðshlutdeild í frosnu snarli og forréttum á Niðurlöndum.

Heildarsala félagsins árið 2007 nam um 170 milljónum evra. Stamford Partners veittu einnig fjárhagslega ráðgjöf varðandi þau kaup.