Straumur IB auglýsir eftir forstjóra í atvinnublaði Morgunblaðsins um helgina. Tilkynnt var sl. þriðjudag að Benedikt Gíslason forstjóri Straums IB hefði ráðið sig óvænt til MP Banka. Benedikt hefur verið lykilmaður í að koma fjárfestingabankanum á koppinn hér á landi ásamt öðru starfsfólki ALMC (sem áður var Straumur Burðarás fjárfestingabanki). Sú vinna hefur tafist meðal annars vegna þess að starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins hefur ekki enn fengist og ekki er ennþá vitað hvenær það fæst.

Benedikt Gíslason
Benedikt Gíslason
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Benedikt hverfur til annarra starfa á viðkvæmum tíma og fór það ekki vel í stjórnendur Straums. En nú á að reyna að fylla í skarðið með því að auglýsa eftir eftirmanni hans. Í auglýsingunni kemur fram að starfssvið nýja forstjórans á að vera mótun framtíðarsýnar félagsins, hafa yfirumsjón með uppbyggingu þess og bera ábyrgð á rekstri og áætlanagerð.

„Straumur hyggst leggja megináherslu á markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf. Hjá Straumi starfa í dag um tuttugu manns með mikla reynslu af fjárfestingabankastarfsemi og nýtur félagið hagræðis í rekstri stoðsviða vegna þjónustusamnings við ALMC hf." segir í auglýsingunni. „Eiginfjárstaða Straums er sterk og félagið skuldlaust. Markmið Straums er að verða leiðandi fjárfestingabanki á Íslandi. Straumur er að öllu leyti í eigu ALMC sem er nær alfarið í eigu erlendra fjárfesta."

ALMC vinnur úr eignum

ALMC er eignarhaldsfélag sem hefur það verkefni að halda utan um og vinna úr eignum sem heyrðu undir Straum. Undir því hefur verið stofnað dótturfélagið Straumur IB hf. sem verður ef allt gengur eftir fjárfestingarbanki. ALMC hefur gert þjónustusamning við Straum um ákveðna þjónustu við eignarhaldsfélagið eins og bakvinnslu, áhættustjórnun, upplýsinga- og tæknimál og fleira.