Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefur keypt meirihluta í eQ Corporation, finnskum banka sem sérhæfir sig í eignastýringu, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf. Gert verður yfirtökutilboð í allt hlutafé og kauprétti í eQ. Tilboðsverðið verður 7,60 evrur á hlut og 5,40 evrur fyrir hvern kauprétt. Samanlagt virði kaupanna og tilboðsins er 260 milljónir evra eða 22 milljarða króna.

Stjórn eQ mælir með því að hluthafar og rétthafar samþykki yfirtökutilboðið segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Straumur-Burðarás hefur keypt 62% hlutafjár í eQ Corporation og mun í framhaldinu gera yfirtökutilboð í allt eftirstandandi hlutafé og alla kauprétti í eQ. Greitt verður með reiðufé.  Straumur-Burðarás hefur fengið samþykki íslenska Fjármálaeftirlitsins fyrir viðskiptunum og eru kaupin og yfirtökutilboðið óháð skilyrðum. Yfirtökutilboðið verður gert snemma í júní og verður samþykktartímabilið þrjár vikur.

eQ sérhæfir sig m.a. í verðbréfamiðlun, eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf. Bankinn hefur vaxið hratt og örugglega á undanförnum árum innan Finnlands. Sterkur efnahagsreikningur Straums-Burðaráss mun gera eQ kleift að vaxa enn hraðar á heimamarkaði sínum og sækja inn á nýja landfræðilega markaði.

Markmið Straums-Burðaráss er að verða leiðandi norrænn fjárfestingabanki. Því marki verður m.a. náð með vexti erlendis, einkum á Norðurlöndunum og í Bretlandi, og með aukinni fjölbreytni í tekjugrunnum bankans. Kaupin á eQ eru liður í þessu ferli. Þau gera Straumi-Burðarási t.a.m. kleift að bæta eignastýringu við þjónustuframboð bankans, útvíkka starfssvæði hans, margfalda fjölda viðskiptavina, stækka efnahagsreikning bankans í 6,2 milljarða evra sem og að auka þóknanatekjur og hreinar vaxtatekjur úr 43% í 50% af hreinum rekstrartekjum.

Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums-Burðaráss, segir í tilkynningu: "Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki er alþjóðlegur fjárfestingabanki sem hefur það markmið að verða einn af leiðandi fjárfestingabönkum á Norðurlöndum. Kaupin á eQ er mikilvægur áfangi í uppbyggingu bankans á því svæði því þau eru grundvöllur þess að við getum boðið fram þjónustu okkar í Finnlandi. Ég hef þá trú að það sé rúm fyrir framsækinn og samkeppnishæfan fjárfestingabanka á finnskum fjármálamarkaði. Samstilltur kraftur eQ og Straums-Burðaráss mun gera þeim kleift að nýta þau tækifæri sem þar gefast.?

?Kaupin á eQ eru mikilvægt skref í átt að þeim markmiðum sem Straumur-Burðarás hefur sett sér,? segir Friðrik Jóhannsson, forstjóri Straums-Burðaráss. ?Þau auka við þjónustuframboð bankans og gera okkur kleift að ná fótfestu á lykilmarkaði, sem býður hvort tveggja í senn upp á ört vaxandi efnahagslíf og stöðugt rekstrarumhverfi. Við erum hæstánægð með það stjórnunarteymi og starfslið sem nú gengur til liðs við okkur. eQ er stærsta finnska
verðbréfamiðlunarfyrirtækið í kauphöllinni í Helsinki og hefur verið þekkt sem besti vefmiðlarinn í Finnlandi í mörg ár. Með því að bæta eQ í samstæðuna, getur Straumur-Burðarás náð því markmiði sínu að verða leiðandi norrænn fjárfestingabanki, fyrr heldur en ella.?

Gert er ráð fyrir að eQ muni halda áfram sem sjálfstætt fyrirtæki innan samstæðunnar, undir núverandi nafni og án stórvægilegra breytinga á starfsemi þess. Forstjóri eQ og aðrir stjórnendur, sem seldu hlutabréf sín, hafa skuldbundið sig til að starfa áfram hjá fyrirtækinu.

?Ég er sannfærður um að þessi kaup eru mjög jákvæð fyrir viðskiptavini, starfsmenn og hluthafa okkar. Þótt starfsemi eQ muni að mestu haldast óbreytt, mun eiginfjárgrunnur Straums-Burðaráss gefa okkur tækifæri til að þróa þjónustu okkar hraðar á ýmsum mörkuðum,? segir Antti Mäkinen, forstjóri eQ.

Stjórn eQ mælir með því að hluthafar og rétthafar samþykki yfirtökutilboðið þar sem Straumur-Burðarás hefur eignast meirihluta í fyrirtækinu. Þessi ráðlegging er háð því að betra tilboð fáist ekki á samþykktartímabilinu.