Straumur fjárfestingarbanki hagnaðist um 87 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Bankinn var upphaflega stofnaður til að sýsla með þær eignir sem kröfuhafar eiga nú en gamli Straumur átti áður en hann fór í þrot vorið 2009. Starfsemi hans hefur verið víkkuð út og sinnir hann nú almennri fjárfestingabankastarfsemi og er hann nú með 10% hlutdeild á markaði með skuldabréf.

Fram kemur í uppgjöri Straums að heildartekjur hafi numið 345 milljónum króna. Þóknanatekjur skiluðu 287 milljónum, sem jafngilti 83% af heildartekjum bankans.

Arðsemi eigin fjár Straums nam 29%.

Heildareignir námu í lok ársfjórðungsins rétt rúmum 8,5 milljörðum króna. Um 80% af eignum Straums eru ýmist innstæður í Seðlabankanum eða skuldabréf útgefin af ríkissjóði eða Íbúðalánasjóði. Afgangurinn, 20% eigna, eru kröfur á aðrar fjármálastofnanir og sértryggð skuldabréf sem þær hafa gefið út.

Þá nam eigið fé bankans tæpum 1,2 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs og stóð eiginfjárhlutfallið í 64%. Lögbundið hlutfall hljóðar upp á 8%.

Pétur Einarsson er forstjóri Straums.