Straumur fjárfestingabanki hf. hefur lokið sölu á skuldabréfum að nafnvirði 100 milljónir Bandaríkjadala (6,4 milljarðar íslenskra króna) fyrir norska olíu- og gasleitarfyrirtækið DNO ASA. Þetta segir í fréttatilkynningu frá DNO. Norska fjármálafyrirtækið Fearnely Fonds ASA leiddi útboðið ásamt Straumi.

Skuldabréfin eru til sjö ára og borga 350 punkta (3,5%) yfir þriggja mánaða LIBOR vexti og voru seld fjáfestum á Íslandi, Noregi og Bretlandi. LIBOR eru millibankavextir í London.

DNO segir að andvirði útboðsins, sem var selt á pari, verði notað til þess að styðja við framtíðarfjárfestingar fyrirtækisins og þróunarvinnu. Hluti verður einnig notaður til þess að endurjármagna skammtímalán.

DNO er sjálfstætt olíu- og gasleitarfyrirtæki með starfsemi í Noregi, Mið-Austurlöndum og Afríku.