Það að risastór verðbréfasjóður sé endurskoðaður af óþekktu endurskoðendafyrirtæki sem samanstendur af 78 ára gömlum ellilífeyrisþega, bókara og ritara með aðsetur í ofanverðu New York-ríki ætti að vekja upp áleitnar spurningar um trúverðugleika sjóðsins.

Að sama skapi ætti það að vekja upp spurningar að fæstir fengu að koma inn í höfuðstöðvar sjóðsins í New York-borg en þar höfðu aðeins tveir menn aðstöðu: Sá sem stofnaðu sjóðinn í sínu nafni, Bernard Madoff, og dularfullur maður sem að sögn breska blaðsins The Daily Telegraph gengur eingöngu undir nafninu Frank.

En þrátt fyrir þetta dularfulla og vafasama skipulag treystu bankar, sjóðir og fjárfestar um heim allan Madoff fyrir peningum sínum.

Í ljós hefur komið að Madoff stóð fyrir stærstu Ponzisvikamyllu allra tíma og mun hrun spilaborgarinnar kosta fjárfesta 50 milljarða Bandaríkjadala.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .