Bandaríska ölgerðin Anheuser-Busch hefur samþykkt yfirtökutilboð frá belgíska áfengisframleiðandanum InBev NV. Tilboðið hljóðar upp á 52 milljarða Bandaríkjadala, en með sameiningu félaganna verður til stærsti bjórframleiðandi heims.

InBev framleiðir m.a. Stella Artois og Beck´s bjór, á meðan Anheuser-Busch framleiðir Budweiser. InBev greiðir 70 dali á hlut við yfirtökuna, en bauð upphaflega 65 dali á hlut.

Miklar hræringar hafa verið meðal áfengisframleiðenda að undanförnu. Scottish & Newcastle var skipt upp og tóku Carlsberg og Heineken yfir rekstur þess. SABMiller og Molson Coors hafa einnig ákveðið að láta starfsemi sína í Bandaríkjunum renna saman.