Kaupþing greiðir 2.985 milljónir evra fyrir NIBC, sem svarar til 12,7 x hagnaðar NIBC síðustu tólf mánuði (að 30. júní 2007) og 1,5 x eigin fjár NIBC þann 30. júní 2007. Kaupþing gerir ráð fyrir að yfirtakan muni auka hagnað á hlut á árinu 2008.

Í frétt frá Kaupþing kemur fram að félagið hyggst greiðir seljanda hluta af kaupverðinu með útgáfu 110 milljóna nýrra hluta á genginu 115,375 sænskar krónur á hlut, samtals að verðmæti 1.360 milljónir evra. Seljandi verður næst stærsti hluthafinn í Kaupþingi. Í samræmi við almenna viðskiptavenju verður seljanda óheimilt að selja alla hlutina í 12 mánuði (e. lock-up period) frá lokafrágangi kaupanna auk þess sem seljanda verður óheimilt að selja um það bil 48 milljónir hluta í 24 mánuði.

1.625 milljónir evra verða greiddar í reiðufé af handbæru fé, með útgáfu víkjandi skuldabréfa (e. Tier 1) og afrakstri útgáfu á 40 milljónum nýrra hluta sem boðnir verða hluthöfum í forgangsréttarútboði. Gert er ráð fyrir að hlutafjárútboðið fari fram snemma á næsta ári.

Útgáfa nýrra hluta er í samræmi við gildandi heimild um útgáfu á allt að 150 milljónum nýrra hluta í Kaupþingi sem er um 20% aukning. Lausafjárstaða Kaupþings er sterk og því er bankinn vel í stakk búinn fyrir yfirtökuna. Markmið NIBC um trausta lausafjárstöðu er sambærilegt stefnu Kaupþings. Hinn sameinaði banki mun leggja mikla áherslu á sterka lausafjárstöðu og einnig að fylgja núverandi markmiði Kaupþings um að innlán fjármagni yfir 40% af lánum til viðskiptavina.

Meðal skilmála í kaupsamningnum er að húsnæðislánasafn NIBC (e.sub-prime portfolio) verði flutt í sérstakt félag undir stjórn seljanda áður en gengið verður frá samningi.