MMR hefur birt niðurstöður úr könnun þar sem athuguð var afstaða fólks til þess hvort gera ætti neyslu kannabisefna löglega á Íslandi. Mun fleiri sögðust vera fylgjandi lögleiðingu kannabisefna nú en í nóvember 2011. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 24,3% vera fylgjandi því að lögleiða neysluna borið saman við 12,7%.

Karlar voru frekar hlynntir því að neysla kannabisefna yrði gerð lögleg á Íslandi en konur. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 31,4% karla vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannabisefna, borið saman við 16,5% kvenna.

Stuðningur við lögleiðingu á neyslu kannabisefna fór minnkandi með hærri aldri. Þannig sögðust 42,6% þeirra sem tilheyrðu yngsta aldurshópnum (18-29 ára) vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannabisefna, borið saman við 22,6% þeirra sem tilheyrðu aldurshópnum 30-49 ára, 14,6% þeirra sem tilheyrðu aldurshópnum 50-67 ára og 3,0% þeirra sem tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri).

Þeir sem sögðust styðja Pírata voru líklegri en þeir sem studdu aðra flokka til að vera fylgjandi lögleiðingu á neyslu kannabisefna. Af þeim sem tóku afstöðu og sögðust styðja Pírata voru 46,2% fylgjandi því að lögleiða neysluna borið saman við 11,2% þeirra sem studdu Vinstri græna.

Nánar má lesa um niðurstöður könnunarinnar hér.