MMR hefur birt niðurstöður úr nýrri skoðanakönnun þar sem athugað var fylgi stjórnmálaflokka og stuðningur við ríkisstjórnina.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar um 2,5% milli kannana, en flokkurinn fengi nú 23,6% atkvæða. Björt framtíð mældist næststærsti flokkurinn með 18,6% fylgi, samanborið við 20% í síðustu könnun. Samfylkingin mældist nú með 16,1% fylgi samanborið við 15,1% síðast.

Framsóknarflokkurinnn fengi 12,3% atkvæða samkvæmt könnuninni, en hann var með 10,1% í síðustu könnun. Píratar mældust með 11,3%, en voru með 12,2% síðast, og Vinstri grænir fengju nú 10,7% fylgi samanborið við 10% síðast. Fylgi annarra flokka mældist undir 2%.

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 33%, en mældist 34,3% í síðustu mælingu í lok október og 34% í september.

Svarfjöldi var 976 einstaklingar og tóku 82,7% afstöðu til spurningarinnar.