Viðskiptahalli Bandaríkjanna jókst óvænt í júlí í kjölfar hækkandi olíuverðs og minnkandi útflutnings. Viðskiptahalli vöruskipta jókst um 5% í 68 milljarða dala, eða 4,8 billjónir króna, í júlí, en viðskiptahallinn var 4,58 billjónir króna í júní. Útflutningur Bandaríkjanna minnkaði um 1,1% og var það í fyrsta sinn síðan í febrúar sem það gerist, en innflutningur jókst um 1%. Kostnaður vegna olíukaupa Bandaríkjanna hækkaði úr 1,9 billjónum króna í rúmar tvær billjónir.

Olíuframleiðsla minnkar um 400 þúsund föt á dag

Olíuframleiðsla á heimsvísu minnkaði um 400 þúsund olíuföt á dag í ágúst, samanborðið við framleiðslu í júlímánuði, en minni framleiðsla í Norðursjó og minni útflutningur frá Íran og Sádi-Arabíu eru ástæður þess, segir Alþjóðaorkumálastofnunin. Olíuframleiðsla heimsins var 85,8 milljón olíuföt á dag í ágúst. Framleiðsla OPEC ríkjanna minnkaði um 270 þúsund föt á dag, niður í 30 milljón föt á dag.

Vísitala neysluverðs hækkaði óvænt í Bretlandi

Vísitala neysluverðs í Bretlandi hækkaði óvænt um 0,4% í ágúst á mánaðargrundvelli, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Bretlands. Tólf mánaða verðbólga hækkaði úr 2,4% í 2,5% í ágúst en verðbólga hefur ekki farið upp fyrir það í Bretlandi í mörg ár. Aukning verðbólgunnar er talin auka líkur á því að breski seðlabankinn muni hækka stýrivexti í nóvember, en bankinn hækkaði vextina um 25 punkta í ágúst og eru þeir nú 4,75%.

Nokia skrifar undir 180 milljarða samning í Kína

Sænska farsímafyrirtækið Nokia greindi frá því á þriðjudag að fyrirtækið hefði skrifað undir 180 milljarða króna samstarfssamning við kínversku fyrirtækin China Mobile og PTCA. Kínversku fyrirtækin munu kaupa farsímatengdaþjónustu af Nokia, en Nokia hefur fjárfest fyrir um 300 milljarða í Kína, síðan fyrirtækið hóf starfsemi þar fyrir um tuttugu árum síðan og seldi 32,5 milljónir farsíma þar í landi í fyrra