Seðlabanki Svíþjóðar hækkaði stýrivexti sína um 25 prósentustig í gær og eru vextir bankans nú 2,75%, segir í frétt Financial Times.

Bankinn hefur hækkað vexti sína fimm sinnum á árinu, en efnahagur Svíþjóðar hefur vaxið vegna aukinnar framleiðslu, kröftugs útflutnings og mikillar einkaneyslu. Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur aukist um 4,3% á þessu ári og hefur uppfært spá sína fyrir næsta ár, úr 2,8% í 3,1%.

Stefan Ingves seðlabankastjóri segir að efnahagur landsins muni róast smátt og smátt á næstunni. Hann segir að peningamálastefna bankans muni hafa áhrif á þenslu og að hæging á alþjóðahagvexti muni hafa þar áhrif á. Ingves segir að verðbólgu sé haldið í skefjum, en lækkandi orkuverð verði til þess að verðbólga verður rétt undir markmiðum næstu tvö árin, en muni svo aukast eftir það, en verðbólgumarkmið bankans er 2%.

Verðbólga mælist nú 1,5% í Svíþjóð, en seðlabankinn spáir því að hún verði í 1,9% innan tveggja ára. Talið er að seðlabankinn muni halda stýrivöxtum óbreyttum út árið, en muni svo hækka vexti upp í 3,5% fyrir árslok 2007.