Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti nú fyrir skömmu að stýrivextir yrðu lækkaðir úr 1-1,25% í 0-0,25%, og innspýting í fjármálakerfið upp á 700 milljarða dala – um 95 þúsund milljarðar króna – framkvæmd. Er þetta gert til að slá á neikvæð efnahagsáhrif kórónufaraldursins.

Innspýtingin verður svokölluð magnbundin íhlutun (e. quantitative easing), sem felur í sér kaup bankans á skuldabréfum á markaði. 500 milljörðum dala verður varið í kaup á ríkisskuldabréfum, og 200 milljarðar munu fara í kaup á fasteignaveðskuldabréfum opinberra lánastofnana (e. agency-backed mortgage securities). Kaupin eru sögð munu hefjast á morgun með 40 milljarð dala innspýtingu.

Aðrir vextir bankans voru einnig lækkaðir mikið, meðal annars veðlánavextir, sem lækkuðu úr 1,5% í 0,25%, auk þess sem lánstíminn var lengdur í 90 daga.

Þá var bindiskylda banka – sem segir til um hversu mikið seðlabankafé (innstæður hjá seðlabankanum eða seðlar og mynt) bankar þurfa að eiga í hlutfalli við heildarinnstæður og skammtímaskuldir sínar – var einnig afnumin.

Ennfremur var tilkynnt um samstarfssamninga við alla helstu seðlabanka heims um að tryggja aðgang að lausafé í bandaríkjadölum með gjaldeyrisskiptasamningum.

Jerome Powell seðlabankastjóra Bandaríkjanna hefur verið legið á hálsi af Donald Trump forseta fyrir að lækka ekki vexti og gera meira til að mæta neikvæðum efnahagsáhrifum faraldursins, nú síðast í harðorðri ræðu í gær .

Frétt CNBC .