Indverski seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti þar í landi upp í 9%, en þeir voru áður 8,5%. Þetta gerir bankinn til að sporna gegn verðbólgu, en hún hefur ekki verið hærri í 13 ár og mældist 11,9% í júní.

Þetta er í þriðja sinn á tveimur mánuðum sem indverskir stýrivextir hækka og von er á frekari hækkunum, samkvæmt frétt BBC.

Indverskum stjórnvöldum er mikið í mun að ná tökum á verðbólgunni þar sem kosningar eru strax í byrjun næsta árs. Innflutningstollar á hráolíu og stál hafa verið lækkaðir og einnig hafa verið settar takmarkanir á hrísgrjónaútflutning til að halda verðinu niðri.