„Frá aldamótum hefur styrkleiki kókaínsýna sem okkur berast heldur hækkað með árunum, þó sveiflur séu milli ára,“ segir Valþór Ásgrímsson, verkefnastjóri á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins. „Allra síðustu ár hefur styrkurinn verið nokkuð jafn,“ bætir hann við.

Valþór segir að flest sýni kókaíns sem fáist séu tekin úr stórum sendingum og endurspegli því „ekki endilega það sem fæst á götunni, og það sama á við um amfetamín. Hvað amfetamín varðar eru sveiflurnar meira fram og tilbaka og ekki sjáanlegt neitt trend í þeim tölum sem ég hef. Hlutfallsstyrkur amfetamíns er yfirleitt töluvert lægri en í kókaíninu.“

Í samtali við Viðskiptablaðið segist ónefndur heimildarmaður, sem hefur nokkurra ára reynslu af markaði með fíkniefni, að haldlagningar lögreglu og tollayfirvalda á efnunum hafi lítil sem engin áhrif á markaðinn. „Það er allt morandi í þessu hérna, miklu meira en fólk almennt heldur. Það er aldrei þurrkur, og kannski einu sinni á ári sem það verður vart við einhvern skort. Það eru alltaf að koma inn nýjar sendingar,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .